Fara í innihald

Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/96

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Haralds saga Sigurðarsonar
Höfundur: Snorri Sturluson
96. Fall Haralds Guðinasonar


Haraldur konungur Guðinason lofaði brottferð Ólafi syni Haralds konungs Sigurðarsonar og því liði er þar var með honum og eigi hafði fallið í orustu.

En Haraldur snerist þá með her sinn suður á England því að hann hafði þá spurt að Vilhjálmur bastarður fór sunnan á England og lagði landið undir sig. Þar voru þá með Haraldi konungi bræður hans: Sveinn, Gyrður, Valþjófur. Fundur þeirra Haralds konungs og Vilhjálms jarls varð suður á Englandi við Helsingjaport. Varð þar orusta mikil. Þar féll Haraldur konungur og Gyrður jarl bróðir hans og mikill hluti liðs þeirra. Það var nítján nóttum eftir fall Haralds konungs Sigurðarsonar.

Valþjófur jarl komst á flótta undan og síð um kveldið mætti jarl sveit nokkurri af Vilhjálms mönnum. En er þeir sáu lið jarls flýðu þeir undan á eikiskóg nokkurn. Það var hundrað manna. Valþjófur jarl lét eld leggja í skóginn og brenna upp allt saman.

Svo segir Þorkell Skallason í Valþjófsflokki:

Hundrað lét í heitum
hirðmenn jöfurs brenna
sóknar Yggr, en seggjum
sviðukveld var það, eldi.
Frétt er að fyrðar knáttu
flagðviggs und kló liggja.
Ímleitum fékkst áta
óls blakk við hræ Frakka.