Fara í innihald

Heimskringla/Haralds saga gráfeldar/1

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Haralds saga gráfeldar
Höfundur: Snorri Sturluson
1. Upphaf Eiríkssona

Eiríkssynir tóku þá konungdóm yfir Noregi síðan er Hákon konungur var fallinn. Var Haraldur mest fyrir þeim að virðingu og hann var elstur þeirra er þá lifðu. Gunnhildur móðir þeirra hafði mjög landráð með þeim. Hún var þá kölluð konungamóðir.

Þá voru höfðingjar í landi Tryggvi Ólafsson austur í landi og Guðröður Bjarnarson á Vestfold, Sigurður Hlaðajarl í Þrándheimi en Gunnhildarsynir höfðu mitt land hinn fyrsta vetur. Þá fóru orð og sendimenn milli þeirra Gunnhildarsona og þeirra Tryggva og Guðröðar og var þar allt mælt til sætta, að þeir skyldu hafa þvílíkan hlut ríkis af Gunnhildarsonum sem þeir höfðu áður haft af Hákoni konungi.

Glúmur Geirason er maður nefndur. Hann var skáld Haralds konungs og hreystimaður mikill. Hann orti vísu þessa eftir fall Hákonar:

Vel hefir hefnt, en hafna
hjörs berdraugar fjörvi,
fólkrakkr, um vannst, fylkir,
framlegt, Haraldr Gamla,
er dökkvalir drekka
dólgbands fyr ver handan,
roðin frá eg rauðra benja
reyr, Hákonar dreyra.

Þessi vísa varð allkær.

En er þetta spurði Eyvindur Finnsson kvað hann vísu er fyrr er ritin:

Fyrr rauð Fenris varra
flugvarr konungr sparra,
málmhríðar svall meiðum
móðr, í Gamla blóði,
þá er óstirfinn arfa
Eiríks of rak, geira
nú tregr gæti-Gauta
grams fall, á sjá alla.

Var sú vísa og mjög flutt.

En er það spyr Haraldur konungur þá gaf hann Eyvindi þar fyrir dauðasök, allt til þess að vinir þeirra sættu þá með því að Eyvindur skyldi gerast skáld hans, svo sem hann hafði áður verið Hákonar konungs. Var frændsemi milli þeirra mikil, svo að Gunnhildur var móðir Eyvindar dóttir Hálfdanar jarls en móðir hennar var Ingibjörg dóttir Haralds konungs hins hárfagra.

Þá orti Eyvindur vísu um Harald konung:

Lítt kváðu þig láta
landvörðr, er brast, Hörða,
benja hagl á brynjum,
bugust álmar, geð fálma,
þá er ófólgin ylgjar
endr úr þinni hendi
fetla svell til fyllar
fullegg, Haraldr, gullu.

Gunnhildarsynir sátu mest um mitt land því að bæði þótti þeim ekki trúlegt að sitja undir hendi Þrændum eða Víkverjum er mestir höfðu verið vinir Hákonar konungs en stórmenni mart í hvorumtveggja stað. Þá fóru menn að bera sættarboð í milli þeirra Gunnhildarsona og Sigurðar jarls því að þeir fengu engar skyldir áður úr Þrándheimi og varð það að lyktum að þeir gerðu sætt sína, konungar og jarl, og bundu svardögum. Skyldi Sigurður jarl hafa slíkt ríki af þeim í Þrándheimi sem hann hafði fyrr haft af Hákoni konungi. Voru þeir þá sáttir kallaðir.

Allir synir Gunnhildar voru kallaðir sínkir og var það mælt að þeir fælu lausafé í jörðu. Um það orti Eyvindur skáldaspillir:

Bárum, Ullr, um alla,
ímunlauks, á hauka
fjöllum Fýrisvalla
fræ Hákonar ævi.
Nú hefir fólkstríðir Fróða
fáglýjaðra þýja
meldr í móður holdi
mellu dólgs um fólginn.
Fyllar skein á fjöllum
fallsól bráavallar
Ullar kjóls um allan
aldr Hákonar skaldum.
Nú er álfröðull elfar
jötna dólgs um fólginn,
ráð eru ramrar þjóðar
rík, í móður líki.

Þá er Haraldur konungur spurði vísur þessar sendi hann orð Eyvindi að hann skyldi koma á fund hans.

En er Eyvindur kom þá bar konungur sakar á hann og kallaði hann óvin sinn. „Og samir þér það illa,“ segir hann, „að veita mér ótrúnað því að þú hefir áður gerst minn maður.“

Þá kvað Eyvindur vísu:

Einn drottin hefi eg áttan,
jöfur dýrr, en þig fyrri,
belli, bragningr, elli,
bið eg eigi mér hins þriðja.
Trúr var eg tiggja dýrum.
Tveim skjöldum lék eg aldrei.
Fylli eg flokk þinn, stillir.
Fellr á hendr mér elli.

Haraldur konungur lét festa sér fyrir mál þetta sinn dóm. Eyvindur átti gullhring mikinn og góðan er kallaður var Moldi. Hann hafði verið tekinn löngu áður úr jörðu. Hring þann segir konungur að hann vill hafa og var þá engi annar kostur á.

Þá kvað Eyvindur:

Skyldi eg, skerja foldar
skíðrennandi, síðan
þursa tæs frá þvísa
þinn góðan byr finna,
er, valjarðar, verðum,
veljandi, þér selja
lyngva mens, það er lengi,
látr, minn faðir átti.

Fór þá Eyvindur heim og er ekki þess getið að hann fyndi síðan Harald konung.