Heimskringla/Haralds saga gráfeldar/2

Úr Wikiheimild

Gunnhildarsynir tóku kristni á Englandi sem fyrr var ritið. En er þeir komu til forráða í Noregi þá fengu þeir ekki áleiðis komið að kristna menn í landi en allt þar er þeir komu því við þá brutu þeir niður hof og spilltu blótum og fengu af því mikla óvináttu.

Var það á þeirra dögum að árferð spilltist í landi því að konungar voru margir og hafði hver þeirra hirð um sig. Þurftu þeir mikils við um kostnað og voru þeir hinir fégjörnustu en ekki héldu þeir mjög lög þau er Hákon konungur hafði sett nema það er þeim þótti fellt.

Þeir voru allir hinir fríðustu menn, sterkir og stórir, íþróttamenn miklir.

Svo segir Glúmur Geirason í drápu þeirri er hann orti um Harald Gunnhildarson:

Kunni tólf, sá er, tanna,
tíðum, Hallinskíða
ógnarstafr, um jöfra,
íþróttir, fram sótti.

Oftlega voru þeir bræður allir saman en stundum sér hver. Þeir voru menn grimmir og hraustir, orustumenn miklir og mjög sigursælir.