Heimskringla/Haralds saga gráfeldar/3

Úr Wikiheimild

Gunnhildur konungamóðir og synir hennar voru oft á tali og málstefnum og réðu landráðum.

Og eitt sinn spyr Gunnhildur sonu sína: „Hvernug ætlið þér að láta fara um ríki í Þrándheimi? Þér berið konunganöfn svo sem fyrr höfðu haft langfeðgar yðrir en þér hafið lítið lið og land og eruð margir til skiptis. Víkina austur hafa þeir Tryggvi og Guðröður og hafa þeir þar nokkura tiltölu fyrir ættar sakir en Sigurður jarl ræður öllum Þrændalögum og veit eg það eigi hver skylda yður ber til þess að láta jarl einn ráða ríki svo mikið undan yður. Þykir mér það undarlegt er þér farið hvert sumar í víking á önnur lönd en látið jarl innanlands taka af yður föðurleifð yðra. Lítið mundi Haraldi þykja, er þú ert eftir heitinn, föðurföður þínum, að setja jarl einn af ríki og lífi er hann vann allan Noreg undir sig og réð síðan til elli.“

Haraldur segir: „Það er eigi svo,“ segir hann, „að taka Sigurð jarl af lífdögum sem að skera kið eða kálf. Sigurður jarl er ættstór og frændmargur, vinsæll og vitur. Vænti eg ef hann spyr með sönnu að hann á ófriðar von af oss, þá eru þar allir Þrændir sem hann er. Eigum vér þar þá ekki erindi nema illt eina. Líst mér svo sem engum vorum bræðra þyki tryggt að sitja undir hendi þeim Þrændum.“

Þá segir Gunnhildur: „Vér skulum þá fara allt annan veg með voru ráði, gera oss minna fyrir. Haraldur og Erlingur skulu sitja í haust á Norð-Mæri. Mun eg og fara með yður. Skulum vér þá öll saman freista hvað að sýslist.“

Nú gera þau á þessa leið.