Heimskringla/Haralds saga gráfeldar/4

Úr Wikiheimild

Bróðir Sigurðar jarls hét Grjótgarður. Hann var yngri miklu þeirra og virður minna. Hafði hann og ekki tignarnafn en hann hélt þó sveit og var í víking á sumrum og fékk sér fjár.

Haraldur konungur sendi menn inn í Þrándheim á fund Sigurðar jarls með vingjöfum og vinmælum, segir að Haraldur konungur vill leggja við hann þvílíka vináttu sem áður hafði Sigurður jarl haft við Hákon konung. Það fylgdi og orðsending að jarl skyldi koma á fund Haralds konungs, skyldu þeir þá binda að fullu vináttu sína. Sigurður jarl tók vel sendimönnum og vináttu konungs, segir það að hann mátti ekki fara á fund konungs fyrir fjölskyldum sínum en sendi konungi vingjafir og orð góð og blíð í móti vináttu hans. Fóru sendimenn í brott. Þeir fóru á fund Grjótgarðs og fluttu til hans hið sama erindi, vináttu Haralds konungs og heimboð og þar með góðar gjafir. En er sendimenn fóru heim þá hét Grjótgarður ferð sinni.

Og að ákveðnum degi kemur Grjótgarður á fund Haralds konungs og Gunnhildar. Var þar við honum tekið allfeginsamlega. Var hann þar hafður í hinum mestum kærleikum svo að Grjótgarður var hafður við einkamál og marga leynda hluti. Kemur þar niður að sú ræða var uppi höfð til Sigurðar jarls sem þau höfðu áður samið, konungur og drottning. Töldu þau fyrir Grjótgarði hversu jarl hafði hann lítinn mann gert en ef hann vildi vera í þessu ráði með þeim þá segir konungur að Grjótgarður skyldi vera jarl hans og hafa ríki það allt er áður hafði Sigurður jarl haft. Kom svo að þau sömdu þetta með einkamálum, að Grjótgarður skyldi halda njósn til nær líkast væri að veita atferð Sigurði jarli og gera þá orð Haraldi konungi. Fór Grjótgarður heim við svo búið og þá gjafir góðar af konungi.