Heimskringla/Haralds saga gráfeldar/13

Úr Wikiheimild

Hákon jarl fór um haustið til Helsingjalands og setti þar upp skip sín, fór síðan landveg um Helsingjaland og Jamtaland og svo austan um Kjöl, komu ofan í Þrándheim. Dreif þegar lið til hans og réð hann til skipa.

En er það spyrja Gunnhildarsynir þá stíga þeir á skip sín og halda út eftir firði. En Hákon jarl fer út á Hlaðir og sat þar um veturinn en Gunnhildarsynir sátu á Mæri og veittu hvorir öðrum árásir og drápust menn fyrir.

Hákon jarl hélt ríki sínu í Þrándheimi og var þar oftast á vetrum en fór á sumrum stundum austur á Helsingjaland og tók þar skip sín og fór í Austurveg og herjaði þar á sumrum en stundum sat hann í Þrándheimi og hafði her úti og héldust þá Gunnhildarsynir ekki fyrir norðan Stað.