Heimskringla/Haralds saga gráfeldar/13
Útlit
Heimskringla - Haralds saga gráfeldar
Höfundur: Snorri Sturluson
13. Frá Hákoni jarli og Gunnhildarsonum
Höfundur: Snorri Sturluson
13. Frá Hákoni jarli og Gunnhildarsonum
Hákon jarl fór um haustið til Helsingjalands og setti þar upp skip sín, fór síðan landveg um Helsingjaland og Jamtaland og svo austan um Kjöl, komu ofan í Þrándheim. Dreif þegar lið til hans og réð hann til skipa.
En er það spyrja Gunnhildarsynir þá stíga þeir á skip sín og halda út eftir firði. En Hákon jarl fer út á Hlaðir og sat þar um veturinn en Gunnhildarsynir sátu á Mæri og veittu hvorir öðrum árásir og drápust menn fyrir.
Hákon jarl hélt ríki sínu í Þrándheimi og var þar oftast á vetrum en fór á sumrum stundum austur á Helsingjaland og tók þar skip sín og fór í Austurveg og herjaði þar á sumrum en stundum sat hann í Þrándheimi og hafði her úti og héldust þá Gunnhildarsynir ekki fyrir norðan Stað.