Fara í innihald

Heimskringla/Haralds saga gráfeldar/14

Úr Wikiheimild

Haraldur gráfeldur fór á einu sumri með her sinn norður til Bjarmalands og herjaði þar og átti orustu mikla við Bjarma á Vínubakka. Þar hafði Haraldur konungur sigur og drap mart fólk, herjaði þá víða um landið og fékk ófa mikið fé.

Þess getur Glúmur Geirason:

Austr rauð jöfra þrýstir
orðrakkr fyr bý norðan
brand, þar er bjarmskar kindir,
brennanda, sá eg renna.
Gott hlaut gumna sættir,
geirveðr, í för þeiri,
öðlingi fékkst ungum,
orð, á Vínu borði.

Sigurður konungur slefa kom til bús Klypps hersis. Hann var sonur Þórðar Hörða-Kárasonar. Hann var ríkur maður og kynstór. Klyppur var þá eigi heima en Ólöf kona hans tók vel við konungi og var þar veisla góð og drykkjur miklar.

Ólöf kona Klypps hersis var Ásbjarnardóttir, systir Járn-Skeggja norðan af Yrjum. Hreiðar var bróðir Ásbjarnar, faðir Styrkárs, föður Eindriða, föður Einars þambarskelfis.

Konungur gekk um nóttina til hvílu Ólafar og lá þar að óvilja hennar. Síðan fór konungur í brott.

Eftir um haustið fóru þeir Haraldur konungur og Sigurður bróðir hans upp á Vörs og stefndu þar þing við bændur. En á þinginu veittu bændur þeim atför og vildu drepa þá en þeir komust undan og fóru í brott síðan. Fór Haraldur konungur í Harðangur en Sigurður konungur fór á Alreksstaði.

En er það spyr Klyppur hersir þá heimtast þeir saman frændur og veita atferð konungi. Var höfðingi fyrir ferðinni Vémundur völubrjótur. En er þeir koma á bæinn þá ganga þeir að konungi. Klyppur lagði konung með sverði í gegnum og varð það bani hans en þegar í stað drap Erlingur gamli Klypp.