Fara í innihald

Heimskringla/Magnúss saga Erlingssonar/37

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Magnúss saga Erlingssonar
Höfundur: Snorri Sturluson
37. Frá Magnúsi konungi og Erlingi jarli


Magnús konungur hafði þá verið þrettán vetur konungur er Birkibeinar hófust. Hið þriðja sumar réðu þeir sér til skipa, fóru þá fyrir land fram, fengu sér fjár og liðs. Þeir voru fyrst í Víkinni en er á leið sumarið stefndu þeir norður í land, fóru svo skyndilega að ekki kom njósn fyrir þá fyrr en þeir komu til Þrándheims. Birkibeinar höfðu mest í flokki sínum Markamenn og Elfargríma og mjög mart höfðu þeir af Þelamörk og vel voru þeir þá vopnaðir. Eysteinn konungur þeirra var fríður og fagurleitur, lítilleitur, ekki mikill maður. Hann var kallaður af mörgum mönnum Eysteinn meyla.

Magnús konungur og Erlingur jarl sátu í Björgyn þá er Birkibeinar sigldu norður um og urðu ekki við þá varir.

Erlingur var maður ríkur, spakur að viti, hermaður hinn mesti ef ófriður var, landráðamaður góður og stjórnsamur, kallaður heldur grimmur og harðráður. En hitt var þó mest að hann lét óvini sína þá eina landsvistina fá, þótt griða beiddust, og urðu fyrir þá sök margir til að hlaupa í flokkana þegar er hófust í móti honum. Erlingur var hár maður og harðvaxinn, nokkuð baraxlaður, langleitur, skarpleitur, ljóslitaður og gerðist hár mjög, bar hallt höfuðið nokkuð, hugaðlátur og veglátur, hafði forneskju klæðabúnað, langa upphluti og langar ermar á kyrtlum og á skyrtum, valskikkjur, uppháva skúa. Slíkan búnað lét hann konung hafa meðan hann var ungur en þá er hann réð sjálfur bjó hann sig mjög í skart.

Magnús konungur var léttlátur og leikinn, gleðimaður mikill og kvinnamaður mikill.