Fara í innihald

Heimskringla/Magnúss saga Erlingssonar/6

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Magnúss saga Erlingssonar
Höfundur: Snorri Sturluson
6. Frá Erlingi skakka


Óðinsdag áður messur væru sungnar í býnum lagði Erlingur brott öllu liðinu úr bænum. Þeir höfðu skip eitt og tuttugu. Þá var blásandi byr sunnan með landi. Erlingur hafði með sér Magnús konung son sinn. Margir voru þar lendir menn og höfðu hið fríðasta lið. Þá er Erlingur sigldi norður fyrir Fjörðu þá sendi hann skútu inn af leið til bús Jóns Hallkelssonar og lét taka Nikulás son Símonar skálps og son Maríu Haraldsdóttur gilla og höfðu þeir hann með sér út til liðsins. Fór hann á konungsskipið. Frjádag þegar í óttu sigldu þeir á Steinavog.

Hákon konungur lá þá í höfn þeirri er heitir ... og hafði fjórtán skip. Var hann sjálfur og menn hans uppi á eyjunni á leiki en lendir menn hans sátu á haugi nokkurum. Þeir sáu að bátur nokkur reri sunnan að eynni. Tveir menn voru þar á og létu þeir fallast í kjölinn ofan og tóku þeir fram árum eigi óákaflegar. En er þeir komu að landi festu þeir ekki bátinn og runnu báðir. En þetta sáu ríkismenn og ræddu sín í milli að þessir menn mundu segja kunna tíðindi nokkur, stóðu upp og gengu í móti þeim.

Og þegar er þeir fundust spurði Önundur Símonarson: „Kunnuð þið nokkuð segja til Erlings skakka er þið farið svo ákaflega?“

Sá svarar er fyrri mátti máli upp koma fyrir mæði sakir: „Hér siglir Erlingur sunnan að yður með tuttugu skip eða því nær og mörg ýrið stór og munuð þér nú skjótt sjá segl þeirra.“

Þá svaraði Eindriði ungi: „Of nær nefi, kvað karl, var skotinn í auga.“

Gengu þeir þá þegar skyndilega þar til sem leikurinn var og því næst kvað lúður við og var blásinn herblástur öllu liði til skipa sem ákaflegast og var það í þann tíma dags er mjög var matbúið. Til skipanna stefndi allt fólk. Hljóp hver þar út á skip sem honum var næst og urðu skipin ójafnskipuð. Taka þeir til ára, sumir reisa viðuna og snúa norður skipunum og stefna til Véeyjar fyrir því að þeir væntu sér þar mikils liðs af býjarmönnum.