Heimskringla/Magnúss saga Erlingssonar/7

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Þessu næst sjá þeir segl þeirra Erlings og sjá hvorir aðra. Eindriði ungi hafði það skip er kallað var Draglaun, langskipsbússa mikil, og hafði þá orðið liðfátt því að þeir höfðu hlaupið á önnur skip er þar höfðu áður á verið. Það var seinst skipa Hákonar. En þá er Eindriði kom gegnt eynni Sekk þá kom Bækisúðin eftir þeim, er Erlingur skakki stýrði, og festi saman þau skip. En Hákon var þá nálega kominn inn til Véeyjar er þeir heyrðu lúðragang því að aftur sneru þau skipin er næst voru og vildu veita lið Eindriða og leggja þá hvorirtveggju til orustu svo sem við komust. Fóru mörg seglin ofan þverskipa en engi voru tengd og lögðu borð við borð.

Þessi orusta var ekki löng áður en skipan ryfist á skipi Hákonar konungs. Féllu sumir en sumir hljópu fyrir borð. Hákon steypti yfir sig grárri kápu og hljóp á annað skip. En er hann hafði þar dvalist litla hríð og þóttist hann vita að hann var með óvinum þar kominn, og er hann hugsaði fyrir sér, þá sá hann enga sína menn eða sín skip allnær, þá gekk hann á Bækisúðina og fram í stafnsveit og bað sér griða en stafnbúar tóku hann til sín og gáfu honum grið.

En í þessi hríð hafði orðið mikið mannfall og þó meira af Hákonar mönnum. Fallinn var þá á Bækisúðinni Nikulás sonur Símonar skálps og var hans dráp kennt þeim sjálfum, Erlings mönnum.

Eftir þetta varð hvíld á orustu og greiddust sér hvor skipin. Þá var sagt Erlingi að Hákon konungur var þar á skipinu og stafnbúar hans höfðu tekið hann til sín og heituðust að verja hann. Erlingur sendi mann fram á skipið og bað það segja stafnbúum að þeir varðveittu Hákon svo að hann færi eigi á brott en lést mundu eigi í móti mæla að konungur hefði grið ef það væri ráð ríkismanna og væri þaðan leitað um sættir. Stafnbúar mæltu allir að hann skyldi mæla allra höfðingja heilastur.

Þá lét Erlingur blása ákaflega og bað menn þess að menn skyldu leggja að skipum þeim er óhroðin voru, sagði að þeir mundu eigi komast í betra færi að hefna Inga konungs. Þá æptu allir heróp og eggjaði hver annan og greiddu til atlögunnar. Í þessum þys var Hákon konungur særður banasári.

En eftir fall hans, og þá er hans menn urðu þess varir, þá reru þeir að fast og köstuðu hlífunum og hjuggu tveim höndum og hirtu þá ekki um líf sitt. Þessi ofrausn gerðist þeim brátt að skaða miklum því að Erlings menn sáu bera höggstaði á þeim. Féll lið Hákonar konungs mikill hlutur. Bar það mest til að liðsmunur var mikill og menn Hákonar hlífðu sér lítt en engi þurfti griðin að nefna af Hákonar mönnum nema þeir einir er ríkismenn tóku á vald sitt og festu fé fyrir.

Þessir menn féllu af Hákonar liði: Sigurður kápa, Sigurður hjúpa, Rögnvaldur kunta. En nokkur skip komust undan og reru inn í fjörðu og hjálpu svo lífi sínu.

Lík Hákonar konungs var flutt inn í Raumsdal og var þar jarðað. Sverrir konungur bróðir hans lét flytja lík Hákonar konungs norður til Kaupangs og leggja í steinvegginn í Kristskirkju fyrir sunnan í kórinum.