Heimskringla/Magnúss saga berfætts/1

Úr Wikiheimild

Magnús sonur Ólafs konungs var þegar til konungs tekinn í Víkinni eftir andlát Ólafs konungs yfir allan Noreg.

En er Upplendingar spurðu andlát Ólafs konungs þá tóku þeir til konungs Hákon Þórisfóstra, bræðrung Magnúss. Síðan fóru þeir Hákon og Þórir norður til Þrándheims. En er þeir komu til Niðaróss þá stefndu þeir Eyraþing og á því þingi beiðir Hákon sér konungsnafns og var honum það veitt, að bændur tóku hann til konungs yfir hálft land svo sem haft hafði Magnús konungur faðir hans. Hákon tók af við Þrændi landauragjald og gaf þeim margar aðrar réttarbætur. Hann tók af og við þá jólagjafir. Snerust þá og allir Þrændir til vináttu við Hákon konung. Þá tók Hákon konungur sér hirð, fór síðan aftur til Upplanda. Hann veitti Upplendingum réttarbætur allar slíkar sem Þrændum. Voru þeir og fullkomnir vinir hans.

Þá var þetta kveðið í Þrándheimi:

Ungr kom Hákon hingað,
hann er bestr alinn manna,
frægðar mildr, á foldu,
fór með Steigar-Þóri.
Syni Ólafs bauð síðan
sjálfr um Noreg hálfan
mildr, en Magnús vildi
málsnjallr hafa allan.