Heimskringla/Magnúss saga berfætts/2

Úr Wikiheimild

Magnús konungur fór um haustið norður til Kaupangs. En er hann kom þar þá fór hann í konungsgarð og var þar að herberginu og dvaldist þar öndverðan vetur. Hann hélt sjö langskipum í vök þíðri fyrir konungsgarði í Nið.

En er Hákon konungur spurði að Magnús konungur var kominn í Þrándheim þá fór hann austan um Dofrafjall og svo til Þrándheims og til Kaupangs og tók hann sér herbergi í Skúlagarði ofan frá Klemenskirkju. Þar var hinn forni konungsgarður.

Magnúsi konungi líkaði illa stórgjafar þær er Hákon konungur hafði gefið bóndum til vinsælda sér. Þótti Magnúsi sín eign gefin engum mun síður og ýfðist hugur hans mjög við það og þóttist mishaldinn af við frænda sinn, er hann skyldi svo miklu minni tekjur hafa en faðir hans hafði haft eða foreldri, og kenndi Þóri ráðin um. Hákon konungur og Þórir urðu þessa varir og var uggur á hver tiltæki Magnús mundi hafa. Þótti þeim það helst grunsamlegt er Magnús hafði á floti langskip tjölduð og búin.

Um vorið nálega kyndilmessu þá lagði Magnús konungur brott á náttarþeli og lögðu út tjölduðum skipum og ljós undir og hélt út til Hefringar, bjó þar um nótt og gerðu þar elda stóra á landi uppi. Þá hugði Hákon konungur og lið það er í býnum var að það væri gert til svika. Hann lét blása liðinu út og sótti allur Kaupangslýður til og voru í safnaði um nóttina. En um morguninn er lýsa tók og Magnús konungur sá allsherjarlið á Eyrunum þá hélt hann út úr firðinum og svo suður í Gulaþingslög.

Hákon konungur byrjaði þá ferð sína og ætlaði austur í Vík og átti áður mót í býnum, talaði þá og bað menn vináttu og hét sinni vináttu öllum. Hann kvað sér skugga vera um vilja frænda síns Magnúss konungs. Hákon konungur sat á hesti og var farbúinn. Allir menn hétu honum vingan með góðum vilja og fylgd ef þyrfti og fylgdi honum lýður allur út undir Steinbjörg. Hákon konungur fór upp til Dofrafjalls. En er hann fór yfir fjallið reið hann um dag eftir rjúpu nokkurri er fló undan honum. Þá varð hann sjúkur og fékk banasótt og andaðist þar á fjallinu og var lík hans norður flutt og kom hálfum mánuði síðar til Kaupangs en hann hafði brott farið. Gekk þá allur bæjarlýður og flestur grátandi móti líki konungs því að allir menn unnu honum hugástum. Lík Hákonar konungs var niður sett í Kristskirkju.

Hákon konungur varð maður vel hálfþrítugur að aldri. Hann hefir höfðingja verið einn ástsælastur í Noregi af allri alþýðu. Hann hafði farið norður til Bjarmalands og átti þar orustu og fékk sigur.