Heimskringla/Magnúss saga berfætts/11

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Magnús konungur var um veturinn í Suðureyjum. Þá fóru menn hans um alla Skotlandsfjörðu fyrir innan eyjar allar, bæði byggðar og óbyggðar, og eignuðu Noregskonungi eylönd öll. Magnús konungur fékk til handa syni sínum Sigurði Bjaðminju, dóttur Mýrjartaks konungs Þjálbasonar Írakonungs. Hann réð fyrir Kunnöktum. Eftir um sumarið fór Magnús konungur liði sínu austur í Noreg. Erlendur jarl varð sóttdauður í Niðarósi og er þar jarðaður en Páll í Björgyn.

Skofti Ögmundarson Þorbergssonar var lendur maður ágætur. Hann bjó í Giska á Sunn-Mæri. Hann átti Guðrúnu dóttur Þórðar Fólasonar. Börn þeirra voru Ögmundur, Finnur, Þórður, Þóra er átti Ásólfur Skúlason. Synir Skofta voru hinir mannvænstu menn í æsku.