Fara í innihald

Heimskringla/Magnúss saga berfætts/12

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Magnúss saga berfætts
Höfundur: Snorri Sturluson
12. Deila Magnúss konungs og Inga konungs


Steinkell Svíakonungur andaðist nær falli Haraldanna. Hákon hét sá konungur er næst var í Svíþjóðu eftir Steinkel konung. Síðan var Ingi konungur sonur Steinkels, góður konungur og ríkur, allra manna mestur og sterkastur. Hann var þá konungur í Svíþjóð er Magnús var í Noregi.

Magnús konungur taldi það hafa verið landaskipti að fornu að Gautelfur hefði skilt ríki Svíakonungs og Noregskonungs en síðan Væni til Vermalands. Taldist Magnús konungur eiga alla þá byggð er fyrir vestan Væni var. Það er Sunndalur og Norðdalur, Véar og Varðynjar og allar Markir er þar liggja til. En það hafði þá langa hríð legið undir Svíakonungs veldi og til Vestra-Gautlands að skyldum en Markamenn vildu vera undir Svíakonungs veldi sem fyrr.

Magnús konungur reið úr Víkinni og upp á Gautland og hafði lið mikið og frítt. En er hann kom í markbyggðina herjaði hann og brenndi, fór svo um allar byggðir. Gekk fólk undir hann og svörðu honum löndin. En er hann kom upp til vatnsins Vænis leið á haustið. Þá fóru þeir út í Kvaldinsey og gerðu þar borg af torfi og viðum og grófu díki um. En er það virki var gert þá var þar flutt í vistir og önnur föng, þau er þyrfti. Konungur setti þar í þrjú hundruð manna og voru þeir höfðingjar fyrir Finnur Skoftason og Sigurður ullstrengur og höfðu hið fríðasta lið en konungur sneri þá út í Víkina.