Heimskringla/Magnúss saga berfætts/13

Úr Wikiheimild

En er Svíakonungur spurði þetta þá bauð hann liði saman og fóru þau orð um að hann mundi ofan ríða en það frestaðist.

Þá kváðu Norðmenn þetta:

Alllengi dvelr Ingi
ofanreið hinn þjóbreiði.

En er ísa lagði á vatnið Væni þá reið Ingi konungur ofan og hafði nær þrjá tigu hundraða manna. Hann sendi orð Norðmönnum þeim er í borginni sátu, bað þá fara í brott með fangi því er þeir höfðu og aftur í Noreg. En er sendimenn báru konungsorð þá svarar Sigurður ullstrengur, sagði að Ingi mundi öðru við koma en vísa þeim brott sem hjörð í haga og kvað hann nær áður mundu ganga verða. Sendimenn báru aftur þau orð til konungs. Síðan fór Ingi konungur út í eyna með allan herinn. Þá sendi hann annað sinni menn til Norðmanna og bað þá í brott fara og hafa vopn sín, klæði og hesta en láta eftir ránfé allt. Þeir neittu þessu.

En síðan veittu þeir atgöngu og skutust á. Þá lét konungur bera til grjót og viðu og fylla díkið. Þá lét hann taka akkeri og drengja við ása langa og bera það upp á timburvegginn. Gengu þar til margir menn og drógu sundur vegginn. Þá voru gervar eisur stórar og skotið logandi bröndum að þeim. Þá báðu Norðmenn griða en konungur bað þá út ganga vopnlausa og yfirhafnarlausa en er þeir gengu út þá var hver þeirra sleginn límahögg. Fóru þeir brott við svo búið og heim aftur í Noreg en Markamenn allir snerust þá aftur undir Inga konung. Þeir Sigurður og hans félagar sóttu á fund Magnúss konungs og segja honum sínar ófarar.