Heimskringla/Magnúss saga berfætts/14

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Þegar um vorið er ísa leysti fór Magnús konungur með liði miklu austur til Elfar og hélt upp eftir hinni eystri kvísl og herjaði allt veldi Svíakonungs. En er hann kom upp á Foxerni þá gengu þeir upp á land frá skipum. En er þeir komu yfir á eina, þá er þar verður, þá kom móti þeim her Gauta og varð þar orusta og voru Norðmenn bornir ofurliði og komu á flótta og var drepið mart við foss einn. Magnús konungur flýði en Gautar fylgdu þeim og drápu slíkt er þeir máttu.

Magnús konungur var auðkenndur, manna mestur. Hann hafði rauðan hjúp yfir brynju, hárið silkibleikt og féll á herðar niður. Ögmundur Skoftason reið á aðra hlið konungi. Hann var og manna mestur og fríðastur.

Hann mælti: „Gef mér hjúpinn konungur.“

Konungur svarar: „Hvað skal þér hjúpurinn?“

„Eg vil hafa,“ sagði hann, „gefið hefir þú mér stærrum.“

Þar var svo háttað að vellir sléttir voru víða og sáust þeir þá ávallt Gautar og Norðmenn. Þá voru enn kleifar og skógarkjörr og fal þá sýn. Þá fékk konungur Ögmundi hjúpinn og fór hann í. Síðan riðu þeir fram á völluna. Þá sneri Ögmundur þvers í brott og hans menn en er Gautar sáu það þá hugðu þeir það konung vera og riðu þannug allir eftir. Reið þá konungur leið sína til skips en Ögmundur dró nauðulega undan og kom þó heill til skips. Hélt Magnús konungur síðan ofan eftir ánni og svo norður í Víkina.