Heimskringla/Magnúss saga berfætts/15

Úr Wikiheimild

Annað sumar eftir var lögð konungastefna við Konungahellu í Elfi og kom þar Magnús Noregskonungur og Ingi Svíakonungur, Eiríkur Sveinsson Danakonungur, og var sú stefna bundin með griðum. En er þingið var sett þá gengu konungar fram á völlinn frá öðrum mönnum og töluðust við litla hríð, gengu þá aftur til liðs síns og var þá ger sættin. Skyldi hver þeirra hafa það ríki sem áður höfðu haft feður þeirra en hver þeirra konunga bæta við sína landsmenn rán og mannskaða en hver þeirra síðan jafna við annan. Magnús konungur skyldi fá Margrétar dóttur Inga konungs. Hún var síðan kölluð friðkolla.

Það var mál manna að eigi hefði séð höfðinglegri menn en þeir voru allir. Ingi konungur var einna mestur og þrekulegastur og þótti hann öldurmannlegastur en Magnús konungur þótti skörulegastur og hvatlegastur en Eiríkur konungur var einna fegurstur. En allir voru þeir fríðir, stórir menn og göfuglegir og orðsnjallir.

Og skildust að svo búnu.