Heimskringla/Magnúss saga berfætts/16

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Magnús konungur fékk Margrétar drottningar. Var hún send austan af Svíþjóð til Noregs og var henni fengið veglegt föruneyti. En Magnús konungur átti áður nokkur börn þau er nefnd eru. Eysteinn hét sonur hans og var hans móðerni lítið. Annar hét Sigurður og var hann vetri yngri. Þóra hét móðir hans. Ólafur hét hinn þriðji og var hann miklu yngstur. Móðir hans var Sigríður dóttir Saxa í Vík, göfugs manns í Þrándheimi. Hún var frilla konungs.

Svo segja menn að þá er Magnús konungur kom úr vesturvíking að hann hafði mjög þá siðu og klæðabúnað sem títt var í Vesturlöndum og margir hans menn. Gengu þeir berleggjaðir um stræti og höfðu kyrtla stutta og svo yfirhafnir. Þá kölluðu menn hann Magnús berfætt eða berbein. Sumir kölluðu hann Magnús háva en sumir Styrjaldar-Magnús. Hann var manna hæstur.

Mark var gert til um hæð hans á Maríukirkju í Kaupangi, þeirri er Haraldur konungur hafði gera látið. Þar á norðurdurum voru klappaðir á steinvegginum krossar þrír, einn Haralds hæð, annar Ólafs hæð, þriðji Magnúss hæð, og það markað hvar þeim var hægst kyssa á, ofast Haralds kross en lægst Magnúss kross en Ólafs mark jafnnær báðum.