Heimskringla/Magnúss saga berfætts/17

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Skofti Ögmundarson varð missáttur við Magnús konung og deildu þeir um dánararf nokkurn. Skofti hélt en konungur kallaði til með svo mikilli freku að það var við voða sjálfan. Voru þá að áttar margar stefnur og lagði Skofti það ráð til að þeir feðgar skyldu aldrei allir senn vera á konungs valdi, sagði að meðan mundi hlýða.

Þá er Skofti var fyrir konungi flutti hann það fram að skyld frændsemi var milli þeirra konungs og það með að Skofti hafði verið jafnan kær vinur konungs og aldrei brugðist þeirra vinátta, sagði svo að menn mættu það skilja að hann var svo viti borinn „að eg mun,“ segir hann, „eigi það mál halda í deilu við þig konungur ef eg mæli rangt. Og því bregður mér til foreldris míns að eg haldi réttu máli fyrir hverjum manni og geri eg þar engi mannamun að.“

Konungur var hinn sami og mýktist ekki hans skap við slíkar ræður. Fór Skofti heim.