Heimskringla/Magnúss saga berfætts/21

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Sá atburður gerðist í Kaupangi þar sem Ólafur konungur hvílir að eldur kom í hús í bænum og brann víða. Þá var borið út úr kirkjunni skrín Ólafs konungs og sett á mót eldinum. Síðan hljóp að maður einn hvatvís og óvitur og barði skrínið og heitaðist við þann helga mann, sagði svo að allt mundi þá upp brenna nema hann byrgi þeim með bænum sínum, bæði kirkjan og önnur hús. Nú lét almáttigur guð við berast bruna kirkjunnar en þeim óvitra manni sendi hann augnaverk þegar eftir um nóttina og lá hann þar allt til þess er hinn heilagi Ólafur konungur bað honum miskunnar við almáttigan guð og bættist honum í þeirri sömu kirkju.