Heimskringla/Magnúss saga berfætts/25

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


En er jóreykurinn nálgaðist þá kenndu þeir sína menn og fóru þeir með strandhöggvi miklu er Írakonungur hafði sent þeim og hélt hann öll sín orð við Magnús konung. Síðan sneru þeir út til skipanna og var þá um miðdegisskeið. En er þeir komu út á mýrarnar fórst þeim seint um fenin.

Þá þusti her Íra fram úr hverju skógarnefi og réðu þegar til bardaga en Norðmenn fóru dreift og féllu brátt margir.

Þá mælti Eyvindur: „Konungur,“ segir hann, „óheppilega fer lið vort. Tökum nú skjótt gott ráð.“

Konungur mælti: „Blási herblástur öllu liðinu undir merkin en það lið sem hér er skjóti á skjaldborg og förum síðan undan á hæli út yfir mýrarnar. Síðan mun ekki saka er vér komum á sléttlendið.“

Írar skutu djarflega en þó féllu þeir allþykkt en æ kom maður í manns stað. En er konungur var kominn að neðsta díki, þar var torfæra mikil og fástaðar yfir fært. Féllu þar Norðmenn mjög.

Þá kallar konungur Þorgrím skinnhúfu, lendan mann sinn, hann var upplenskur, og bað hann fara yfir díkið með sína sveit „en vér munum verja meðan,“ segir hann, „svo að yður skal eigi saka. Farið síðan á hólma þann er þar verður og skjótið á þá meðan vér förum yfir díkið. Eruð þér bogmenn góðir.“

En er þeir Þorgrímur komu yfir díkið köstuðu þeir skjöldunum á bak sér og runnu til skipa ofan.

En er konungur sá það mælti hann: „Ódrengilega skilstu við þinn konung. Óvitur var eg þá er eg gerði þig lendan mann en eg gerði útlaga Sigurð hund. Aldrei mundi hann svo fara.“

Magnús konungur fékk sár, var lagður kesju í gegnum bæði lærin fyrir ofan kné.

Hann greip skaftið milli fóta sér og braut úr keflið og mælti: „Svo brjótum vér hvern sperrilegginn sveinar.“

Magnús konungur var höggvinn á hálsinn með spörðu og var það hans banasár. Þá flýðu þeir er eftir voru.

Víðkunnur Jónsson bar til skipa sverðið Leggbít og merki konungs. Þeir runnu síðast, annar Sigurður Hranason, þriðji Dagur Eilífsson. Þar féllu með Magnúsi konungi Eyvindur ölbogi, Úlfur Hranason og margir aðrir ríkismenn. Mart féll Norðmanna en þó miklu fleira af Írum.

En þeir Norðmenn er undan komust fóru þegar brott um haustið. Erlingur sonur Erlends jarls féll á Írlandi með Magnúsi konungi. En er það lið er flúið hafði af Írlandi kom til Orkneyja og Sigurður spurði fall Magnúss konungs föður síns þá réðst hann þegar til ferðar með þeim og fóru þeir um haustið austur til Noregs.