Heimskringla/Magnúss saga berfætts/26

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Magnús konungur var yfir Noregi tíu vetur og var á hans dögum friður góður innanlands en menn höfðu mjög starfsamt og kostnaðarsamt af leiðöngrum. Var Magnús konungur hinn vinsælsti við sína menn en bóndum þótti hann harður.

Það herma menn frá orðum hans, þá er vinir hans mæltu að hann fór oft óvarlega er hann herjaði utanlands, hann sagði svo: „Til frægðar skal konung hafa en ekki til langlífis.“

Magnús konungur var nær þrítugur að aldri þá er hann féll. Víðkunnur drap þann mann í orustu er banamaður var Magnúss konungs. Þá flýði Víðkunnur og hafði fengið þrjú sár. Og af þessum sökum tóku synir Magnúss konungs hann í hinn mesta kærleik.