Heimskringla/Magnúss saga berfætts/9
Höfundur: Snorri Sturluson
9. Frá Lögmanni, syni Guðröðar konungs
Magnús konungur kom liði sínu í Eyna helgu og gaf þar grið og frið mönnum öllum og allra manna varnaði. Það segja menn að hann vildi upp lúka Kólumkillakirkju hinni litlu. Og gekk konungur eigi inn og lauk þegar aftur hurðina í lás og mælti að engi skyldi svo djarfur verða síðan að inn skyldi ganga í kirkju þá og hefir síðan svo gert verið.
Þá lagði Magnús konungur liðinu suður til Ílar, herjaði þar og brenndi. En er hann hafði unnið það land þá byrjar hann ferðina suður fyrir Saltíri, herjaði þá á bæði borð á Írland og Skotland, fór svo allt herskildi suður til Manar og herjaði þar sem í öðrum stöðum.
Svo segir Björn krepphendi:
- Vítt bar snjallr á slétta
- Sandey konungr randir.
- Rauk um Íl þá er jóku
- allvalds menn á brennur.
- Satíri laut sunnar
- seggja kind und eggjar.
- Sigrgæðir réð síðan
- snjallr Manverja falli.
Lögmaður hét sonur Guðröðar Suðureyjakonungs. Lögmaður var settur til landvarnar í Norðureyjum. En er Magnús konungur kom til Suðureyja með her sinn þá flýði Lögmaður undan herinum og var í eyjunum en að lyktum tóku menn Magnúss konungs hann með skipsögn sína þá er hann vildi flýja til Írlands. Lét konungur hann í járn setja og hafa á gæslu.
Svo segir Björn krepphendi:
- Hætt vann hvert það er átti
- hvarf Guðröðar arfi.
- Lönd vann lofðungr Þrænda
- Lögmanni þar bannað.
- Nýtr fékk nesjum utar
- naðrbings tapað finginn
- Egða gramr, þar er umdu,
- ungr, véttrima tungur.