Heimskringla/Magnúss saga berfætts/8
Útlit
Heimskringla - Magnúss saga berfætts
Höfundur: Snorri Sturluson
8. Hernaður Magnúss konungs í Suðureyjum
Höfundur: Snorri Sturluson
8. Hernaður Magnúss konungs í Suðureyjum
Magnús konungur byrjaði ferð sína úr landi og hafði með sér lið mikið og frítt og góðan skipakost. Hélt hann liði því vestur um haf og fyrst til Orkneyja. Hann tók höndum jarlana Pál og Erlend og sendi þá báða austur í Noreg en setti eftir Sigurð son sinn til höfðingja yfir eyjunum og fékk honum ráðuneyti. Magnús konungur hélt liði sínu til Suðureyja. En er hann kom þar tók hann þegar að herja og brenna byggðina en drap mannfólkið og rændu allt þar er þeir fóru. En landslýður flýði undan víðs vegar en sumir inn í Skotlandsfjörðu en sumir suður í Saltíri eða út til Írlands. Sumir fengu grið og veittu handgöngu.
Svo segir Björn krepphendi:
- Lék um Ljóðhús fíkjum
- limsorg nær himni.
- Vítt var ferð á flótta
- fús. Gaus eldr úr húsum.
- Ör skjöldungr fór eldi
- Ívist. Bændr misstu,
- róggeisla vann ræsir
- rauðan, lífs og auðar.
- Hungrþverrir lét herjað
- hríðar gagls á Skíði.
- Tönn rauð Tyrvist innan
- teitr vargr í ben marga.
- Grætti Grenlands drottinn,
- gekk hátt Skota stökkvir,
- þjóð rann mýlsk til mæði,
- meyjar suðr í eyjum.