Heimskringla/Magnúss saga berfætts/7

Úr Wikiheimild

Magnús konungur hélt síðan suður til Þrándheims, veitti þar stórar refsingar þeim mönnum er sannir voru að landráðum við hann. Drap hann suma en brenndi fyrir sumum.

Svo segir Björn krepphendi:

Hrafngreddir vann hrædda
hlífar styggr, í byggðum,
þrænska drótt, er þótti
þeim markar böl sveima.
Hygg eg að hersa tveggja
her-Baldr lyki aldri
sinn. Jór vara sváru
svangr. Fló örn til hanga.

Sveinn Haraldsson flýði fyrst til hafs út og svo til Danmerkur og var þar til þess er hann kom sér í sætt við Eystein konung Magnússon. Hann tók Svein í sætt og gerði hann skutilsvein sinn og hafði hann í kærleik og virðingu.

Magnús konungur hafði þá ríki einn saman. Hann friðaði vel fyrir landi sínu og eyddi öllum víkingum og útilegumönnum. Hann var maður röskur og herskár og starfsamur og líkari í öllu Haraldi konungi föðurföður sínum í skaplýsku heldur en föður sínum.