Heimskringla/Magnúss saga berfætts/6

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Þeir Jón og Víðkunnur fóru dag og nótt til þess er þeir fundu Magnús konung. Þeir Sveinn og Þórir héldu og norðan sínu liði og rændu víða um Hálogaland. En er þeir lágu á firði þeim er Harmur heitir þá sáu þeir sigling Magnúss konungs og þóttust þeir Þórir eigi hafa lið til að berjast og reru undan og flýðu. Reri Þórir og Egill til Hesjutúna en Sveinn reri út til hafs en sumt lið þeirra reri inn í fjörðinn. Magnús konungur hélt eftir þeim Þóri. En er skipin renndust að í lendingunni þá var Þórir í fyrirrúmi á sínu skipi.

Þá kallaði Sigurður ullstrengur á hann: „Ertu heill Þórir?“

Þórir svarar: „Heill að höndum en hrumur að fótum.“

Þá flýði lið þeirra Þóris allt á land upp en Þórir varð handtekinn. Egill varð og handtekinn því að hann vildi eigi renna frá konu sinni. Magnús konungur lét flytja þá báða í Vambarhólm. En er Þórir var upp leiddur reikaði hann á fótum.

Þá mælti Víðkunnur: „Meir á bakborða Þórir.“

Síðan var Þórir leiddur til gálga.

Þá mælti hann:

Vorum félagar fjórir
forðum, einn við stýri.

Og er hann gekk að gálganum mælti hann: „Ill eru ill ráð.“

Síðan var hann hengdur og þá er upp reið gálgatréið var Þórir svo höfugur að sundur slitnaði hálsinn og féll búkurinn til jarðar. Þórir var allra manna mestur, bæði hár og digur. Egill var og til gálga leiddur.

En er konungsþrælar skyldu hengja hann þá mælti Egill: „Eigi skuluð þér mig fyrir því hengja að eigi væri hver yðvar maklegri að hanga,“ svo sem kveðið var:

Orð frá eg Agli verða,
unnar dags, á munni,
Sól, við siklings þræla
satt, einarðar latta.
Hvern þeirra kvað hærra,
hjaldrbliks, en sig miklu,
beið of mikið eyðir
angr, maklegri að hanga.

Magnús konungur sat hjá er þeir voru hengdir og var svo reiður að engi var hans manna svo djarfur að þyrði að biðja þeim friðar.

Þá mælti konungur er Egill sparn gálgann: „Illa koma þér góðir frændur í þörf.“

Í því sýndist að konungur vildi hafa verið beðinn að Egill hefði lifað.

Svo segir Björn hinn krepphendi:

Snarr rauð Sygna harri
sverð á upphlaupsferðum.
Vítt nam vargr að slíta
varma bráð á Harmi.
Fráttu hve fylkir mátti,
fór svo að hengdr var Þórir,
för var gunnar gervis
greið, drottinssvik leiða.