Fara í innihald

Heimskringla/Magnúss saga berfætts/5

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Magnúss saga berfætts
Höfundur: Snorri Sturluson
5. Frá Þóri og hans aðgerðum


Sigurður ullstrengur hét lendur maður, sonur Loðins Viggjarskalla. Hann safnaði liði með örvarskurð þá er hann spurði til flokks þeirra Þóris og stefndi öllu liði því er hann fékk til Viggju. En Sveinn og Þórir héldu þannug liði sínu og börðust við þá Sigurð og fengu sigur og veittu mikið mannspell en Sigurður flýði og fór á fund Magnúss konungs. En þeir Þórir fóru til Kaupangs og dvöldust þar um hríð í firðinum og kom þar mart manna til þeirra.

Magnús konungur spurði þessi tíðindi og stefndi þegar liði saman og hélt síðan norður til Þrándheims. En er hann kom í fjörðinn og þeir Þórir spurðu það, þeir lágu þá við Hefring og voru búnir að halda út úr firðinum, þá reru þeir á Vagnvíkaströnd og gengu þar af skipum og komu norður í Þexdali í Seljuhverfi og var Þórir borinn í börum um fjallið. Síðan réðu þeir til skipa og fóru norður á Hálogaland. En Magnús konungur fór eftir þeim þá er hann var búinn úr Þrándheimi. Þeir Þórir fóru allt norður í Bjarkey og flýði Jón undan og Víðkunnur sonur hans. Þeir Þórir rændu þar lausafé öllu en brenndu bæinn og langskip gott er Víðkunnur átti.

Þá mælti Þórir er snekkjan brann og skipið hallaðist: „Meir á stjórn Víðkunnur.“

Þá var þetta ort:

Breðr í Bjarkey miðri
ból það er eg veit gólast.
Tér eigi þarft af Þóri,
þýtr vandar böl, standa.
Jón mun eigi frýja
elds né ráns er kveldar.
Svíðr bjartr logi breiðan
bý. Leggr reyk til skýja.