Heimskringla/Magnúss saga berfætts/4

Úr Wikiheimild

Sveinn er maður nefndur sonur Haralds flettis, danskur maður að kyni. Hann var hinn mesti víkingur og mikill bardagamaður og hinn hraustasti, ættstór maður í sínu landi. Hann hafði verið með Hákoni konungi. En eftir fráfall Hákonar trúði Steigar-Þórir illa því að hann mundi komast í sætt eða í vináttu við Magnús konung, ef ríki hans gengi yfir land, fyrir sakir tilverka og mótgöngu þeirrar er Þórir hafði áður haft við Magnús konung.

Síðan höfðu þeir Þórir og Sveinn ráð það er síðan varð framkvæmt að þeir reistu flokk við styrk og fjölmenni Þóris. En fyrir því að Þórir var þá gamall maður og þungfær þá tók Sveinn við stjórn flokksins og höfðingjanafni.

Að þessu ráði hurfu fleiri höfðingjar. Þeirra var æðstur Egill sonur Ásláks af Forlandi. Egill var lendur maður. Hann átti Ingibjörgu dóttur Ögmundar Þorbergssonar, systur Skofta í Giska. Skjálgur hét maður, ríkur og auðigur, er enn kom til flokksins.

Þess getur Þorkell hamarskáld í Magnússdrápu:

Vítt dró sínar sveitir
saman stórhugaðr Þórir,
heldr vorut þau höldum
hagleg ráð, með Agli.
Snörp frá eg á því, er urpu,
endr Skjálgs vinum, lendir
menn við morðhauks brynni,
mein, um afl sér steini.

Þeir Þórir hófu flokkinn á Upplöndum og komu ofan í Raumsdal og Sunn-Mæri og öfluðu sér þar skipa, héldu síðan norður til Þrándheims.