Heimskringla/Magnúss saga blinda og Haralds gilla/1

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Magnús sonur Sigurðar konungs var tekinn til konungs í Ósló yfir land allt svo sem alþýða hafði svarið Sigurði konungi. Gerðust þá þegar margir menn handgengnir og svo lendir menn.

Magnús var hverjum manni fríðari er þá var í Noregi. Hann var maður skapstór og grimmur, atgervimaður var hann mikill en vinsæld föður hans heimti hann mest til alþýðu vináttu. Hann var drykkjumaður mikill, fégjarn, óþýður og ódæll.

Haraldur gilli var maður léttlátur, kátur, leikinn, lítillátur, ör svo að hann sparði ekki við vini sína, ráðþægur svo að hann lét aðra ráða með sér öllu því er vildu. Slíkt allt dró honum til vinsælda og orðlofs. Þýddust hann þá margir ríkismenn engum mun síður en Magnús.

Haraldur var þá í Túnsbergi er hann spurði andlát Sigurðar konungs bróður síns. Átti hann þá þegar stefnur við vini sína og réðu þeir það af að eiga Haugaþing þar í býnum. Á því þingi var Haraldur til konungs tekinn yfir hálft land. Voru þá kallaðir það nauðungareiðar er hann hafði svarið föðurleifð sína af hendi sér. Tók Haraldur sér þá hirð og gerði lenda menn. Dróst honum brátt lið engum mun minna en Magnúsi konungi. Fóru þá menn í milli þeirra og stóð svo sjö nætur. En fyrir því að Magnús fékk lið miklu minna þá sá hann engan annan sinn kost en skipta ríkinu við Harald. Var þá svo skipt að hálft ríki skyldi hvor þeirra hafa við annan, það er Sigurður konungur hafði haft, en skip og borðbúnað og gersemar og allt lausafé það er Sigurður konungur hafði átt hafði Magnús konungur, og undi hann þó verr sínum hluta, og réðu þó landi nokkura hríð í friði og hugðu þó mjög sér hvorir.

Haraldur konungur gat son við Þóru er Sigurður hét. Þóra var dóttir Guttorms grábarða. Haraldur konungur fékk Ingiríðar dóttur Rögnvalds. Hann var sonur Inga konungs Steinkelssonar.

Magnús konungur átti Kristínu dóttur Knúts lávarðar, systur Valdimars Danakonungs. Magnús varð henni ekki unnandi og sendi hana aftur suður til Danmerkur og gekk honum allt síðan þyngra. Fékk hann óþokka mikinn af frændum hennar.