Heimskringla/Magnúss saga blinda og Haralds gilla/2

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Þá er þeir höfðu tveir verið konungar þrjá vetur, Magnús konungur og Haraldur konungur, sátu þeir hinn fjórða vetur báðir norður í Kaupangi og veitti hvor öðrum heimboð og var þó æ við bardaga búið með liðinu.

En að vori sækir Magnús með skipaliði suður fyrir land og dró lið að sér, allt það er hann fékk, leitar þá þess við vini sína ef þeir vilji fá honum styrk til þess að taka Harald af konungdóminum og miðla honum af ríki slíkt sem honum sýndist, tjáir það fyrir þeim að Haraldur hafði svarið ríkið af hendi sér. Fékk Magnús konungur til þess samþykki margra ríkismanna. Haraldur fór til Upplanda og hið efra austur til Víkur. Dró hann og lið að sér þá er hann spurði til Magnúss konungs. Og hvar sem þeir fóru hjuggu hvorir bú fyrir öðrum og svo drápust þeir menn fyrir. Magnús konungur var miklu fjölmennari því að hann hafði haft allan þorra lands til liðsafnaðar. Haraldur var í Vík austan fjarðar og dró að sér lið og tók þá hvor fyrir öðrum bæði menn og fé. Þar var þá með Haraldi Kriströður, bróðir hans sammæðri, og lendir menn voru margir með honum og þó miklu fleiri með Magnúsi konungi.

Haraldur konungur var með sitt lið þar sem heitir Foss í Ranríki og fór þaðan út til sjávar. Lafransvökuaftan mötuðust þeir að náttverði þar sem heitir Fyrileif. En varðmenn voru á hestum og héldu hestvörð alla vega frá bænum. Og þá verða varðmenn varir við lið Magnúss konungs að þeir fóru þá að bænum og hafði Magnús konungur nær sex tigum hundraða manna en Haraldur hafði fimmtán hundruð manna. Þá komu varðmenn og báru njósn Haraldi konungi og segja að lið Magnúss konungs var þá komið að bænum.

Haraldur svarar: „Hvað mun Magnús konungur frændi vilja? Eigi mun það að hann muni vilja berjast við oss.“

Þá segir Þjóstólfur Álason: „Herra, svo munuð þér verða ráð að gera fyrir yður og liði yðru sem Magnús konungur muni hafa til þess her saman dregið í allt sumar að hann muni ætla að berjast þegar er hann finnur yður.“

Þá stóð konungur upp og mælti við sína menn, bað þá taka vopn sín: „Ef Magnús vill berjast þá skulum vér og berjast.“

Þar næst var blásið og gekk lið Haralds konungs allt út frá býnum í akurgerði nokkuð og settu þar upp merki sín. Haraldur konungur hafði tvær hringabrynjur en Kriströður bróðir hans hafði enga brynju, er kallaður var hinn hraustasti maður. Þá er Magnús konungur og hans menn sáu lið Haralds konungs þá fylktu þeir sínu liði og gerðu svo langa fylkingina að þeir skyldu kringja allt um lið Haralds konungs.

Svo segir Halldór skvaldri:

Magnús fékk þar miklu,
margs gengis naut hann, lengri,
valr nam völl að hylja
varmr, fylkingararma.