Fara í innihald

Heimskringla/Magnúss saga blinda og Haralds gilla/3

Úr Wikiheimild


Magnús konungur lét bera fyrir sér krossinn helga í orustu. Varð þar orusta mikil og hörð. Kriströður konungsbróðir hafði gengið með sína sveit í miðja fylking Magnúss konungs og hjó til beggja handa og stukku fyrir honum menn tvo vega. Og einnhver búandi ríkur, sá er verið hafði í liði Haralds konungs, var staddur á bak Kriströði. Hann reiddi upp kesjuna tveim höndum, lagði í gegnum herðarnar og kom fram í brjóstið og féll Kriströður þar. Þá mæltu margir er hjá stóðu hví hann gerði þetta hið illa verk.

Hann svaraði: „Nú veit hann það er þeir hjuggu bú mitt í sumar og tóku allt það er heima var en höfðu mig nauðgan í her með sér. Slíkt hugði eg honum fyrr ef eg fengi föng á.“

Eftir það kom flótti í lið Haralds konungs og flýði hann sjálfur og allt lið hans. Þá var fallið mart af liði Haralds konungs. Þar fékk banasár Ingimar af Aski Sveinsson, lendur maður úr liði Haralds konungs og nær sex tigum hirðmanna.

Haraldur konungur flýði þá austur í Vík til skipa sinna og fór síðan til Danmerkur á fund Eiríks konungs eimuna og sótti hann að trausti. Þeir fundust suður á Sjálandi. Eiríkur konungur tók vel við honum og mest fyrir því að þeir höfðu svarist í bræðralag. Hann veitti Haraldi að veislu og yfirferð Halland og gaf honum átta langskip reiðalaus. Eftir það fór Haraldur konungur norður um Halland og þá kom lið til hans.

Magnús konungur lagði land allt undir sig eftir orustu þessa. Grið gaf hann öllum mönnum er sárir voru og lét græða sem sína menn og kallaði sér þá land allt. Hann hafði þá allt hið besta mannval er í var landinu. En er þeir réðu ráðum sínum þá vildi Sigurður Sigurðarson og Þórir Ingiríðarson og allir hinir vitrustu menn að þeir héldu flokkinum í Víkinni og biðu þar ef Haraldur leitaði sunnan. Magnús konungur tók hitt með einræði sínu að hann fór norður til Björgynjar og settist þar um veturinn en lét lið fara frá sér en lenda menn til búa sinna.