Heimskringla/Magnúss saga blinda og Haralds gilla/4

Úr Wikiheimild

Haraldur konungur kom til Konungahellu með lið það er honum hafði fylgt úr Danmörk. Þá höfðu þeir þar safnað fyrir, lendir menn og býjarmenn, og settu fylking upp frá býnum. En Haraldur konungur gekk af skipum sínum og gerði menn til bóndaliðs og beiddi af þeim að þeir verðu honum eigi vígi land sitt og lést eigi mundu meira beiðast en hann átti að réttu að hafa og fóru menn milli. Um síðir gáfu bændur upp safnaðinn og gengu til handa Haraldi konungi. Þá gaf Haraldur til liðs sér lén og veislur lendum mönnum en réttarbætur bóndum þeim er í lið snerust með honum. Eftir það safnaðist mikið fólk til Haralds konungs.

Fór hann austan um Víkina og gaf góðan frið öllum mönnum nema mönnum Magnúss konungs. Þá lét hann ræna eða drepa hvar sem hann stóð þá. Og þá er hann kom austan til Sarpsborgar þá tók hann þar tvo lenda menn Magnúss konungs, Ásbjörn og Nereið bróður hans, og bauð þeim kost að annan skyldi hengja en öðrum steypa í fossinn Sarp og bað þá sjálfa kjósast að. Ásbjörn kaus að fara í Sarp því að hann var eldri en sá þótti dauðinn enn grimmlegri og var svo gert.

Þess getur Halldór skvaldri:

Ásbjörn varð, sá er orðum
illa hélt við stilli,
gramr fæðir val víða
vígs, í Sarp að stíga.
Nereið lét gramr á grimman
grandmeið Sigars fjanda,
húsþinga galt, hengja,
hrannbáls glötuðr mála.

Eftir það fór Haraldur konungur norður til Túnsbergs og var þar vel við honum tekið. Safnaðist þar og til hans her mikill.