Heimskringla/Magnúss saga blinda og Haralds gilla/13

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Sigurður er maður nefndur er upp fæddist í Noregi. Hann var kallaður sonur Aðalbrikts prests. Móðir Sigurðar var Þóra dóttir Saxa í Vík, systir Sigríðar móður þeirra Ólafs konungs Magnússonar og Kára konungsbróður, er átti Borghildi dóttur Dags Eilífssonar. Synir þeirra voru þeir Sigurður á Austurátt og Dagur. Synir Sigurðar voru Jón á Austurátt og Þorsteinn, Andrés daufi. Jón átti Sigríði systur Inga konungs og Skúla hertoga.

Sigurður var í barnæsku settur til bókar og varð hann klerkur og vígður til djákns. En er hann gerðist fullkominn að aldri og afli þá var hann allra manna vasklegastur og sterkastur, mikill maður og á alla atgervi var hann umfram alla jafnaldra sína og nálega hvern annan í Noregi. Sigurður var snemma ofsamaður mikill og óeirarmaður. Hann var kallaður slembidjákn. Manna var hann fríðastur, heldur þunnhár og þó vel hærður.

Þá kom það upp fyrir Sigurð að móðir hans segir að Magnús konungur berfættur var faðir hans. Og þegar er hann réð sjálfur háttum sínum þá afræktist hann klerkasiðu, fór þá af landi brott. Í þeim ferðum dvaldist hann langa hríð. Þá byrjaði hann ferð sína út til Jórsala og kom til Jórdanar og sótti helga dóma svo sem palmarum er títt. Og er hann kom aftur þá dvaldist hann í kaupferðum. Einn vetur var hann staddur nokkura hríð í Orkneyjum. Hann var með Haraldi jarli að falli Þorkels fóstra Sumarliðasonar. Sigurður var og uppi á Skotlandi með Davíð Skotakonungi. Var hann þar virður mikils. Síðan fór Sigurður til Danmerkur og var það hans sögn og hans manna að þar hefði hann flutt skírslur til faðernis sér og bar svo að hann væri sonur Magnúss konungs og væru þar við fimm biskupar.

Svo segir Ívar Ingimundarson í Sigurðarbelki:

Gerðu skírslur
um skjöldungs kyn
fimm biskupar,
þeir er framast þóttu.
Svo bar raunir
að ríks konungs
þess var hins milda
Magnús faðir.

Vinir Haralds sögðu að það hefðu verið svik og lygi Dana.