Heimskringla/Magnúss saga blinda og Haralds gilla/14
Höfundur: Snorri Sturluson
14. Frá Sigurði slembidjákn
Þá er Haraldur hafði verið konungur yfir Noregi sex vetur kom Sigurður til Noregs og fór á fund Haralds konungs bróður síns, hitti hann í Björgyn, gekk þegar brátt á fund hans, birti fyrir konungi faðerni sitt og beiddi konung taka við frændsemi sinni. Konungur veitti enga úrskurði skjóta um það mál og bar þetta fyrir vini sína, átti við þá tal og stefnur. En af tali þeirra kom það upp að konungur bar sakir á hendur Sigurði um það er hann hafði verið að aftöku Þorkels fóstra fyrir vestan haf. Þorkell hafði fylgt Haraldi konungi til Noregs þá fyrst er hann hafði komið til lands. Hafði Þorkell verið hinn mesti vinur Haralds konungs. Var þessu máli fylgt svo fast að þar var Sigurði gefin fyrir dauðasök.
Og með ráði lendra manna þá varð þetta svo, að eitt kveld síðarlega gengu til gestir nokkurir þar er Sigurður var og kölluðu hann með sér og tóku skútu nokkura og reru brott frá býnum með Sigurð og suður til Norðness. Sigurður sat aftur á kistunni og hugsaði sitt mál og grunaði að þetta mundu vera svik. Hann var svo búinn að hann hafði blár brækur og skyrtu og möttul á tuglum að yfirhöfn. Hann sá niður fyrir sig og hafði hendur á möttulsböndunum, lét stundum af höfði sér, stundum lét hann á höfuð sér.
En er þeir voru komnir fyrir nes eitt, voru þeir kátir og drukknir og reru ákaflega og uggðu fátt, þá stóð Sigurður upp og gekk til borðs en tveir menn, þeir er til gæslu voru fengnir með honum, stóðu upp og gengu að borðinu, tóku möttulinn báðir og héldu frá honum sem títt er að gera við ríka menn. En er hann grunaði að þeir héldu fleirum klæðum hans þá greip hann sinni hendi hvorn þeirra og steyptist utanborðs með alla þá en skútan renndi fram á langt og varð þeim seint að víkja og löng dvöl áður en þeir fengju sína menn tekið.
En Sigurður tók svo langt kaf í brott að hann var fyrr á landi uppi en þeir hefðu snúið skipi sínu eftir honum. Sigurður var allra manna fóthvatastur og stefnir hann á land upp en konungsmenn fóru og leituðu hans alla nótt og fundu hann eigi. Hann lagðist í bergskor nokkura. Svalaði honum mjög. Hann fór af brókunum og skar rauf á setgeiranum og smeygði á sig og tók út höndunum og hjálp svo lífi sínu að sinni. Konungsmenn fóru aftur og máttu eigi leyna sínum óförum.