Heimskringla/Magnúss saga góða/15

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Magnús konungur kastaði eigu sinni á Viggju, er Hrútur hafði átt, og Kvistsstaði, er Þorgeir hafði átt, svo og á Eggju og allt það fé, er Kálfur átti eftir, og margar aðrar stórar eignir lét hann þá falla í konungsgarð, þær er þeir höfðu átt er fallið höfðu á Stiklastöðum í bóndaliði. Hann gerði og við marga þá menn stórar refsingar er í þeirri orustu höfðu verið í mót Ólafi konungi. Suma rak hann af landi og af sumum tók hann stórfé. Fyrir sumum lét hann bú höggva.

Þá tóku bændur að gera kurr og mæltu sín í milli: „Hvað mun konungur þessi fyrir ætla er hann brýtur lög á oss, þau er setti Hákon konungur hinn góði? Man hann eigi það að vér höfum jafnan eigi þolað vanréttið? Mun hann hafa farar föður síns eða annarra höfðingja, þeirra er vér höfum af lífi tekið þá er oss leiddist ofsi þeirra og löglausa.“

Þessi kurr var víða í landi. Sygnir höfðu liðsafnað og það orð á að þeir mundu halda til orustu við Magnús konung ef hann færi þar. Magnús konungur var þá á Hörðalandi og hafði þar dvalist mjög lengi og hafði lið mikið og lét sem þá mundi hann fara norður í Sogn. Þessa urðu varir vinir konungs og gengu tólf menn á málstefnu og samdist það með þeim að hluta til einn mann að segja konungi þenna kurr. En svo var til stillt að Sighvatur skáld hlaut.