Heimskringla/Magnúss saga góða/14

Úr Wikiheimild

Það var litlu síðar er Magnús konungur var á veislu að Haugi í Veradal. En er konungur sat að matborði þá sat á aðra hönd honum Kálfur Árnason en á aðra hönd Einar þambarskelfir. Þá var svo komið að konungur gerði fæð á við Kálf en virti þá Einar mest.

Konungur mælti til Einars: „Við skulum ríða í dag á Stiklastaði. Vil eg sjá þau merki er þar hafa orðið.“

Einar svarar: „Ekki kann eg þér þar af að segja. Lát Kálf fara fóstra þinn. Hann mun þar kunna að segja frá tíðindum.“

En er borð voru uppi þá bjóst konungur til farar.

Hann mælti til Kálfs: „Þú skalt fara með mér á Stiklastaði.“

Kálfur segir að það var ekki skylt.

Þá stóð konungur upp og mælti heldur reiðulega: „Fara skaltu Kálfur.“

Síðan gekk konungur út.

Kálfur klæddist skjótt og mælti til sveins síns: „Þú skalt ríða inn á Eggju og biðja húskarla mína hafa hvert fat á skipi fyrir sólarfall.“

Konungur reið á Stiklastaði og Kálfur með honum, stigu af hestum og gengu þar til er bardaginn hafði verið.

Þá mælti konungur til Kálfs: „Hvar er sá staður er konungurinn féll?“

Kálfur svarar og rétti frá sér spjótskaftið: „Hér lá hann fallinn,“ segir hann.

Konungur mælti: „Hvar varstu þá Kálfur?“

Hann svarar: „Hér sem nú stend eg.“

Konungur mælti og var þá rauður sem dreyri: „Taka mundi þá öx þín til hans.“

Kálfur svarar: „Ekki tók öx mín til hans.“

Gekk hann þá í brott til hests síns, hljóp á bak og reið leið sína og allir hans menn en konungur reið aftur til Haugs.

Kálfur kom um kveldið inn á Eggju. Var skip hans búið fyrir landi og á komið lausafé allt og skipað af húskörlum hans. Héldu þeir þegar um nóttina út eftir firði. Fór Kálfur síðan dag og nótt svo sem byr gaf. Sigldi hann þá vestur um haf og dvaldist þar lengi, herjaði um Skotland og um Írland og Suðureyjar.

Þess getur Bjarni Gullbrárskáld í Kálfsflokki:

Þér frá eg, Þorbergs hlýri,
þess gerðust ér verðir,
hélt því, uns her um spillti,
Haralds bróðurson góðan.
Vöktu öfundmenn ykkar
iðula róg á miðlum.
Óþörf líst mér arfa
Ólafs í þeim málum.