Heimskringla/Magnúss saga góða/13

Úr Wikiheimild

Kálfur Árnason hafði landráð mest með Magnúsi konungi fyrst nokkura stund. En þá gerðust menn til áminningar við konung hvar Kálfur hafði verið á Stiklastöðum. Gerðist Kálfi þá nokkuru vandgættra til skaps konungs.

Það bar að eitt sinn þá er fjölmennt var með konungi og kærðu menn mál sín, þá kom fyrir hann með sín skyld erindi sá maður er fyrr er nefndur, Þorgeir úr Veradal af Súlu. Konungur gaf ekki gaum að orðum hans og hlýddi þeim er honum voru nærri.

Þá mælti Þorgeir til konungs hátt svo að allir heyrðu, þeir er nær voru:

Mæl þú við mig,
Magnús konungr.
Eg var í fylgju
með föður þínum.
Þá bar eg höggvinn
haus minn þaðan,
er þeir of dauðan
dögling stigu.
Þú elskar
þá arma þjóð
drottinsvika,
er djöful hlægðu.

Þá gerðu menn að óhljóð en sumir báðu Þorgeir út ganga. Konungur kallaði hann til sín og lauk síðan erindum hans svo að Þorgeiri líkaði vel og hét honum vináttu sinni.