Heimskringla/Magnúss saga góða/12

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Hárekur úr Þjóttu sat heima að búum sínum allt þar til er Magnús Ólafsson kom í land og hann var konungur. Þá fór Hárekur suður til Þrándheims á fund Magnúss konungs. Þá var þar með Magnúsi konungi Ásmundur Grankelsson. En er Hárekur gekk upp af skipi, er hann kom til Niðaróss, en Ásmundur stóð í loftsvölum hjá konungi, þeir sáu Hárek og kenndu.

Ásmundur mælti til konungs: „Nú vil eg gjalda Háreki dráp föður míns.“

Hann hafði í hendi breiðöxi litla og þunnslegna.

Konungur leit til hans og mælti: „Haf heldur öxi mína.“

Sú var veggslegin og þykk.

Enn mælti konungur: „Ætla svo Ásmundur að hörð munu bein í þeim karli.“

Ásmundur tók öxina og gekk ofan úr garðinum. Og er hann kom ofan á þverstrætið þá gengu þeir Hárekur neðan í mót. Ásmundur hjó í höfuð Háreki svo að þegar stóð öxin í heila niðri. Var það bani Háreks. En Ásmundur gekk upp aftur í garðinn til konungs og var egg öll fallin úr öxinni.

Þá mælti konungur: „Hvernig mundi nú hafa dugað hin þunna öx? Mér sýnist sem þessi sé nú ónýt.“

Síðan gaf Magnús konungur Ásmundi lén og sýslu á Hálogalandi og eru þar margar frásagnir miklar um skipti þeirra Ásmundar og sona Háreks.