Heimskringla/Magnúss saga góða/17

Úr Wikiheimild

Haraldur Englakonungur andaðist fimm vetrum eftir andlát Knúts hins ríka föður síns. Hann var jarðaður hjá föður sínum í Vincestur.

Eftir andlát hans tók konungdóm í Englandi Hörða-Knútur bróðir Haralds, annar sonur gamla Knúts. Var hann þá konungur bæði yfir Englandi og Danaveldi. Réð hann því ríki tvo vetur. Hann varð sóttdauður á Englandi og er jarðaður í Vincestur hjá föður sínum.

Eftir andlát hans var til konungs tekinn í Englandi Játvarður hinn góði, sonur Aðalráðs Englakonungs og Emmu drottningar dóttur Ríkarðar Rúðujarls. Játvarður konungur var bróðir sammæðri Haralds og Hörða-Knúts.

Gunnhildur hét dóttir gamla Knúts og Emmu. Hún var gift Heinreki keisara í Saxlandi. Hann var kallaður Heinrekur mildi. Gunnhildur var þrjá vetur í Saxlandi áður hún tók sótt. Hún andaðist tveimur vetrum eftir andlát Knúts konungs föður síns.