Heimskringla/Magnúss saga góða/18

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Magnús konungur Ólafsson spurði andlát Hörða-Knúts. Þá sendi hann þegar menn suður til Danmerkur og gerði með þeim orðsendingar til þeirra manna er svardögum höfðu við hann bundist þá er sætt þeirra og einkamál voru ger, Magnúss og Hörða-Knúts, og minnti þá á orð sín, lét það og fylgja að hann sjálfur mundi koma þegar um sumarið til Danmerkur með liði sínu og lét þar fylgja ályktarorð að hann skyldi eignast allt Danaveldi svo sem stóðu til einkamál og svardagar eða falla sjálfur í orustu með her sínum.

Svo segir Arnór jarlaskáld:

Afkárleg varð, jarla,
orðgnótt, sú er hlaut dróttinn.
Fylgdi efnd því, er ylgjar
angrtælir réð mæla,
að fram í gný grimmum
grafnings und kló hrafni
fús lést falla ræsir
feigr eða Danmörk eiga.