Heimskringla/Magnúss saga góða/19

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Þá safnaði Magnús konungur liði saman, stefndi til sín lendum mönnum og ríkum bóndum, aflaði sér langskipa. En er lið það kom saman þá var það hið fríðasta og allvel búið. Hann hafði sjö tigu skipa er hann sigldi af Noregi.

Svo segir Þjóðólfur:

Djarft neyttir þú, drottinn
dólgstrangr, skipa langra,
af því að ýtar höfðu
austr sjö tigu flausta.
Suðr gnauðuðu súðir.
Segl hýnd við stag rýndu.
Vík skar vandlangt eiki.
Vísundr hneigði þröm sveigðan.

Hér getur þess að Magnús konungur hafði þá Vísund hinn mikla er hinn helgi Ólafur konungur hafði gera látið. Hann var meir en þrítugur að rúmatali. Var á framstafni vísundarhöfuð en aftur sporður. Var höfuðið og sporðurinn og báðir svírarnir allt gulllagt.

Þess getur Arnór jarlaskáld.

Ljótu dreif á lyfting utan
lauðri. Bifðist gullið rauða,
fastlegr hneigði furu geystri
fyris garmr, um skeiðar stýri.
Stirðum hélstu um Stafangr norðan
stálum. Bifðust fyrir álar.
Uppi glóðu élmars typpi,
eldi lík, í Danaveldi.

Magnús konungur sigldi út af Ögðum og yfir til Jótlands.

Svo segir Arnór:

Segja mun eg, hve Sygna
snarfengjan bar þengil
hallr og hrími sollinn
hléborðs vísundr norðan.
Setti bjóðr að breiðu
brynþings, fetilstinga
fús tók öld við æsi
Jótlandi, gramr, branda.