Heimskringla/Magnúss saga góða/25

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Hinn sama vetur er Sveinn Úlfsson hafði fengið yfirsókn um Danaveldi og hann hafði vingast við allmikið stórmenni og fengið alþýðu lof þá lét hann gefa sér konungsnafn og hurfu að því ráði margir höfðingjar.

En um vorið er hann spurði að Magnús konungur fór norðan úr Noregi og hafði her mikinn þá fór Sveinn til Skáneyjar og þaðan upp á Gautland og svo til Svíþjóðar á fund Önundar Svíakonungs frænda síns og dvaldist þar um sumarið en hafði njósnir í Danmörk um ferð Magnúss konungs eða um fjölmenni hans.

En er Sveinn spurði að Magnús konungur hafði látið frá sér fara mikinn hluta liðs síns og svo það að hann var suður á Jótlandi þá reið Sveinn ofan af Svíþjóð og hafði þá lið mikið er Svíakonungur fékk honum. En er Sveinn kom út á Skáney þá tóku Skánungar vel við honum og héldu hann þar fyrir konung. Dreif þá lið mikið til hans. Síðan fór hann út til Sjálands og var þar vel við honum tekið. Lagði hann þar allt undir sig. Þá fór hann í Fjón og lagði undir sig allar eyjar og gekk fólkið undir hann. Hafði Sveinn her mikinn og mart skipa.