Heimskringla/Magnúss saga góða/24
Magnús konungur hélt liði sínu norður í Noreg og dvaldist þar um veturinn.
En er vor kom þá hafði Magnús konungur úti lið mikið og hélt því suður til Danmerkur. En er hann kom þar spurði hann þau tíðindi af Vindlandi að Vindur höfðu horfið undan hlýðni við hann í Jómsborg. Þar höfðu Danakonungar haft jarlsríki mikið. Hófu þeir Jómsborg að upphafi og var það orðið allstyrkt vígi. En er Magnús konungur heyrði slíkt sagt þá bauð hann út af Danmörk skipaher miklum og hélt um sumarið til Vindlands með allan herinn og hafði allmikinn her.
Svo segir Arnór jarlaskáld:
- Heyra skaltu, hve herskjöld báruð,
- hilmis kundr, til Vinda grundar,
- heppinn dróttu af hlunni sléttum
- hélug börð, í stefjaméli.
- Aldrei frá eg enn, vísi, valdið
- Vinda sorg, að döglingr spendi,
- flaustum var þá flóð um ristið,
- fleiri skip til óðals þeira.
En er Magnús konungur kom til Vindlands þá lagði hann til Jómsborgar og vann þegar borgina, drap þar mikið fólk en brenndi borgina og landið víða út í frá og gerði þar hið mesta hervirki.
Svo segir Arnór jarlaskáld:
- Skjöldungr, fórstu um óþjóð eldi.
- Auðið var þá flotnum dauða.
- Hæstan kyntuð, hlenna þrýstir,
- hyrjar ljóma suðr að Jómi.
- Hvergi þorði hallir varða
- heiðið fólk í virki breiðu.
- Buðlungr, unnuð borgarmönnum
- björtum eldi stalldræp hjörtu.
Mikið fólk á Vindlandi gekk til handa Magnúsi konungi en miklu var hitt meira er undan flýði. Fór þá Magnús konungur aftur til Danmerkur, bjó sér þar til vetursetu en sendi frá sér herinn, bæði hinn danska og svo mart lið það er honum hafði fylgt af Noregi.