Heimskringla/Magnúss saga góða/23

Úr Wikiheimild

Einn dag þá er Magnús konungur sat í hásæti og var fjölmennt um hann sat Sveinn Úlfsson á fótskörinni fyrir konunginum.

Þá tók konungur til máls: „Kunnigt vil eg gera höfðingjum og allri alþýðu þá ráðagerð sem eg vil vera láta. Hér er kominn til mín ágætur maður, bæði að ættum og af sjálfum sér, Sveinn Úlfsson. Hann hefir nú gerst minn maður og selt mér trú sína til þess. En svo sem þér vitið, að allir Danir hafa í sumar gerst mínir menn, þá er nú landið höfðingjalaust, er eg em í brott farinn, en þar er sem þér vitið mjög herskátt af Vindum og Kúrum og öðrum Austurvegsmönnum eða svo Söxum. Hét eg þeim og að fá höfðingja til landvarnar og landstjórnar. Sé eg þar engan mann jafnvel til fallinn fyrir allra hluta sakir sem Svein Úlfsson. Hefir hann ætt til þess að vera höfðingi. Nú mun eg gera hann jarl minn og fá honum í hendur Danaveldi til yfirsóknar meðan eg em í Noregi svo sem Knútur hinn ríki setti Úlf jarl, föður hans, höfðingja yfir Danmörk þá er Knútur var á Englandi.“

Einar þambarskelfir segir: „Ofjarl, ofjarl, fóstri.“

Konungur mælti reiðulega: „Fátt þykir yður eg kunna. En mér líst svo sem yður þyki sumt ofjarlar en sumt ekki að mönnum.“

Þá stóð konungur upp og tók sverð og festi á linda Sveini. Síðan tók hann skjöld og festi á öxl honum, setti síðan hjálm á höfuð honum og gaf honum jarlsnafn og veislur slíkar í Danmörk sem þar hafði áður haft Úlfur jarl faðir hans. Síðan var fram borið skrín með helgum dómum. Lagði Sveinn þar á hendur sínar og sór trúnaðareiða Magnúsi konungi. Síðan leiddi konungur jarl til hásætis með sér.

Svo segir Þjóðólfur:

Sjálfr var austr við Elfi
Úlfs mögr og hét fögru.
Þar réð Sveinn að sverja
sínar hendr að skríni.
Réð Ólafs sonr eiðum,
átt hafa þeirra sáttir
skemmra aldr en skyldi,
Skánunga gramr, hánum.

Fór þá Sveinn jarl til Danmerkur og var þar við honum vel tekið af allri alþýðu. Tók hann sér þá hirð og gerðist brátt höfðingi mikill. Fór hann um veturinn víða um landið og vingaðist mjög við stórmenni. Var hann og vinsæll af alþýðu.