Heimskringla/Magnúss saga góða/22
Sveinn er maður nefndur sonur Úlfs jarls Þorgilssonar sprakaleggs. Móðir Sveins var Ástríður dóttir Sveins konungs tjúguskeggs. Hún var systir Knúts hins ríka samfeðra en hún var sammæðra við Ólaf Svíakonung Eiríksson. Þeirra móðir var Sigríður drottning hin stórláta dóttir Sköglar-Tósta. Sveinn Úlfsson hafði þá dvalist langa hríð með Svíakonungum frændum sínum, jafnan síðan er fallið hafði Úlfur jarl faðir hans svo sem ritað er í sögu Knúts hins gamla að hann lét drepa Úlf jarl mág sinn í Hróiskeldu. Var Sveinn fyrir þá sök ekki í Danmörk síðan.
Sveinn Úlfsson var allra manna fríðastur sýnum. Manna var hann og mestur og sterkastur og hinn mesti íþróttamaður og snilldarmaður. Það var allra manna mál, þeirra er hann var kunnigur, að hann hefði alla hluti til þá er fríða góðan höfðingja.
Sveinn Úlfsson kom á fund Magnúss konungs þá er hann lá í Elfinni svo sem áður er ritað. Tók konungur vel við honum. Voru þar og margir flutningsmenn til, því að Sveinn var hinn vinsælsti maður. Talaði hann og sjálfur sitt mál fyrir konungi fagurt og snjallt og kom svo að Sveinn gekk til handa Magnúsi konungi og gerðist hans maður. Síðan töluðu þeir konungurinn og Sveinn marga hluti í einmælum.