Fara í innihald

Heimskringla/Magnúss saga góða/27

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Magnúss saga góða
Höfundur: Snorri Sturluson
27. Jartegn Ólafs konungs


Eftir um daginn var Mikjálsmessuaftann.

En er komið var að degi þá sofnaði konungur og dreymdi að hann sá hinn helga Ólaf konung föður sinn og mælti við hann: „Ertu nú mjög hugsjúkur og óttafullur er Vindur fara móti þér með her mikinn? Ekki skaltu hræðast heiðingja þótt þeir séu margir saman. Eg mun fylgja þér í orustu þessi. Ráðið þér þá til bardaga við Vindur er þér heyrið lúður minn.“

En er konungur vaknaði þá segir hann draum sinn. Tók þá að lýsa af degi. Þá heyrði allt fólk í loft upp klukkuhljóð og kenndu Magnúss konungs menn, þeir er verið höfðu í Niðarósi, að svo þótti sem Glöð væri hringt. Þá klukku hafði Ólafur konungur gefið til Klemenskirkju í Kaupangi.