Heimskringla/Magnúss saga góða/28
Þá stóð upp Magnús konungur og kallaði að blása skyldi herblástur. Fór þá Vindaherinn sunnan yfir ána að þeim. Hljóp þá upp allur konungsherinn og stefndi í móti heiðingjum. Magnús konungur steypti af sér hringabrynju og hafði ysta rauða silkiskyrtu og tók í hönd sér öxina Hel er átt hafði Ólafur konungur. Magnús konungur rann fyrir öllum mönnum öðrum í móti herinum og hjó þegar tveim höndum hvern mann að öðrum.
Svo segir Arnór jarlaskáld:
- Óð með öxi breiða
- ódæsinn fram ræsir,
- varð um hilmi Hörða
- hjördynr, en varp brynju,
- þá er um skaft, en skipti
- skapvörðr himins jörðu,
- Hel klauf hausa fölva,
- hendr tvær jöfur spenndi.
Orusta þessi var ekki löng. Voru konungsmenn hinir áköfustu. En hvar sem þeir komu saman féllu Vindur svo þykkt sem unnvörp lægju en þeir er síðar stóðu sneru á flótta og voru þeir þá höggnir niður sem búfé. Rak konungur sjálfur flóttann austur yfir heiðina og féll fólkið um alla heiðina.
Svo segir Þjóðólfur:
- Hykk í hundraðs flokki
- Haralds bróðurson stóðu,
- hrafn vissi sér hvassast
- hungrbann, framast manna.
- Vítt lá Vinda flótti.
- Varð, þar er Magnús barðist,
- höggvinn valr að hylja
- heiði rastar breiða.
Það er alþýðu mál að ekki mannfall hafi orðið jafnmikið á Norðurlöndum í kristnum sið sem það er varð á Hlýrskógsheiði af Vindum. En af liði Magnúss konungs féll ekki mart en fjöldi varð sárt.
Eftir orustu lét Magnús konungur binda sár sinna manna en læknar voru ekki svo margir í herinum sem þá þurfti. Þá gekk konungur til þeirra manna er honum sýndist og þreifaði um hendur þeim. En er hann tók í lófana og strauk um þá nefndi hann til tólf menn, þá er honum sýndist sem mjúkhendastir mundu vera og segir að þeir skyldu binda sár manna en engi þeirra hafði fyrr sár bundið. En allir þessir urðu hinir mestu læknar. Þar voru tveir íslenskir menn. Var annar Þorkell Geirason af Lyngum, annar Atli faðir Bárðar svarta í Selárdal og komu frá þeim margir læknar síðan.
Eftir þessa orustu varð frægt mjög víða um lönd jartegn sú er gert hafði hinn helgi Ólafur konungur og var það alþýðu mál að engi maður mundi þurfa að berjast við Magnús konung Ólafsson og Ólafur konungur faðir hans væri honum svo nákvæmur að óvinir hans mættu enga mótstöðu veita honum fyrir þá sök.