Heimskringla/Magnúss saga góða/29

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Magnús konungur sneri þá herinum móti Sveini er hann kallaði jarl sinn þótt Danir kölluðu hann konung. Réð Magnús konungur sér til skipa og bjó herinn. Fjölmenntu þá hvorirtveggju mjög. Voru þá margir höfðingjar í liði Sveins, Skánungar, Hallandsfarar, Fjónbúar. En Magnús konungur hafði mest Norðmenn og Jóta. Hélt hann þá liði sínu til móts við Svein. Varð fundur þeirra fyrir Vestlandi á Ré.

Varð þar orusta mikil og lauk svo að Magnús konungur hafði sigur en Sveinn kom á flótta og lét lið mikið. Flýði hann þá aftur á Skáney því að hann átti hæli uppi á Gautlandi ef hann þurfti til að taka. En Magnús konungur fór þá aftur til Jótlands og sat þar um veturinn fjölmennur og hafði gæslu á skipum sínum.

Þessa getur Arnór jarlaskáld:

Fús lét á Ré ræsir
rammþing háið Glamma.
Valska rauð fyr víðu
Vestlandi gramr branda.