Heimskringla/Magnúss saga góða/30

Úr Wikiheimild

Sveinn Úlfsson fór þegar á skip sín er hann spurði að Magnús konungur var genginn af skipum. Dró Sveinn lið að sér, allt það er hann fékk, og fór þá um veturinn um Sjáland og um Fjón og um eyjar og er dró að jólum hélt hann suður til Jótlands, lagði fyrst til Limafjarðar og gekk þar mart fólk undir hann en hann tók gjöld af sumum. Sumir fóru á fund Magnúss konungs.

En er þetta spurði Magnús konungur hvað Sveinn hafðist að þá fór hann til skipa sinna og hafði með sér Norðmanna lið það er þá var í Danmörk en sumt Dana lið, hélt þá sunnan fyrir land. Sveinn var þá í Árósi og hafði mikið lið. En er hann spurði til hers Magnúss konungs þá lagði hann sínu liði úr bænum og bjóst til orustu.

En er Magnús konungur hafði spurt hvar Sveinn var og hann vissi að þá mundi vera skammt millum þeirra þá átti hann húsþing og talaði við lið sitt, sagði svo: „Nú höfum vér spurt að jarl með lið sitt mun hér nú liggja fyrir oss. Er mér svo sagt að þeir hafi lið mikið. Og vil eg gera yður kunnigt um ætlan mína. Vil eg leggja til fundar við jarl og berjast við hann þótt vér höfum lið nokkuru færra. Munum vér traust vort eiga enn sem fyrr þar er guð sjálfur er og hinn helgi Ólafur konungur faðir minn. Hefir hann oss nokkurum sinnum fyrr sigur gefið þá er vér höfum barist og höfum vér oft haft lið minna en óvinir vorir. Nú vil eg að menn búist svo við að vér skulum leita þeirra og þegar er fund vorn ber saman þá skulum vér að róa og taka þegar til bardaga. Veri þá allir búnir mínir menn að berjast.“

Síðan herklæddust þeir og bjó hver sig og sitt rúm. Reru þeir Magnús konungur fram þar til er þeir sáu lið jarls, greiddu þegar atróðurinn. En Sveins menn vopnuðust og tengdu saman skip sín. Tókst þá þegar hörð orusta.

Svo segir Þjóðólfur:

Lögðu, græðis glóða,
gramr og jarl fyr skömmu,
þar kom bitr á börva
brandleikr, saman randir,
svo að manþinga mundut
merkjendr Héðins serkjar,
her náði gný gerva
geirs, orustu meiri.

Þeir börðust um stafna og máttu þeir einir höggum við koma er í stafni voru en þeir lögðu kesjum er í fyrirrúmi voru en allir þeir er aftar voru skutu snærispjótum eða gaflökum eða vígörum en sumir börðu grjóti eða skeftiflettum en þeir er fyrir aftan siglu voru skutu bogaskotum.

Þess getur Þjóðólfur:

Skotið frá eg skeftiflettum
skjótt og mörgu spjóti,
bráð fékk hrafn, þar er háðum
hjaldr, á breiða skjöldu.
Neyttu, mest sem máttu,
menn að vopna sennu,
baugs en barðir lágu
börvar, grjóts og örva.
Báru böslar fleiri
bogmenn að hör tognum.
Mundit þann dag Þrændi
þreyta fyrr að skeytum.
Svo þykkt flugu síðan
snæridör of skæru,
ótt var ördrif látið,
illa sáttu á milli.

Hér segir það hvernig áköf var skothríðin. Magnús konungur var fyrst öndverða orustu í skjaldborg en er honum þótti seint áorkast þá hljóp hann fram úr skjaldborginni og svo eftir skipinu og kallað hátt og eggjaði sína menn og gekk allt fram í stafninn í höggorustu. En er það sáu hans menn þá eggjaði hver annan. Var þá kall mikið um allan herinn.

Svo segir Þjóðólfur:

Mjök bað Magnúss rekka
mannr rösklega annan,
hörð þrifust boð, þar er börðust
böðský framar knýja.

Gerðist þá hina ákafasta orusta. Í þeirri hríð hrauðst skip Sveins framan um stafninn og söxin. Þá gekk sjálfur Magnús konungur með sína sveit upp á skipið Sveins og síðan hans maður hver að öðrum, gerði þá svo harða atgöngu að Sveins menn hrukku fyrir og hrauð Magnús konungur það skip og síðan hvert að öðru. Flýði þá Sveinn og mikill hluti liðs hans en fjöldi féll hans manna og mart fékk grið.

Svo segir Þjóðólfur:

Vörðr gekk meir að morði,
Magnús, kjalar vagna,
það var frægt, í fagran
framstafn varar hrafni.
Gerðum þar, svo að þurði,
þengill, en óx fengi,
skeiðr nam her að hrjóða,
húskarla lið jarli.
Áðr svanfoldar seldi
sólrýrandi hinn dýri,
jarls lá ferð á ferli,
fjörgrið stöfum hjörva.

Þessi orusta var drottinsdag hinn næsta fyrir jól.

Svo segir Þjóðólfur:

Römm var hildr, sú er hramma
harðelds viðir börðust,
herr gekk snart að snerru,
sunnudag um unnin.
Flaut, þá er feigir létu
fjör gnýstafir hjörva,
þjóð sökk niðr að nauðum
nár á hverri báru.

Magnús konungur tók þar sjö skip af Sveins mönnum.

Svo segir Þjóðólfur:

Hrauð Ólafs mögr áðan,
jöfur vó sigr, hins digra,
fregnat slíkt úr Sogni,
sjö skip, konur hnipnar.

Og enn kvað hann:

Misst hafa Sveins að sýnu,
sverð-Gautr, förunautar,
hörð er heldr um orðin,
heimkomu, för beima.
Hrærir hausa þeira,
hreggi æst, og leggi,
sjár þýtr auðs of árum,
unnr á sanda grunni.

Sveinn flýði þegar um nóttina til Sjálands með því liði sem undan hafði komist og honum vildi fylgja en Magnús konungur lagði að landi skip sín og lét þegar um nóttina lið sitt fara á land en snemma eftir um morguninn komu þeir ofan með strandhögg mikil.

Þess getur Þjóðólfur:

Gær sá eg grjóti stóru,
gein haus fyrir steini,
fóra fylking þeira
fast, harðlega kastað.
Ofan keyrðum vér, orðum
jörð muna Sveinn um varða,
staðar hefir stafn í miðju,
strandhögg, numið landi.