Heimskringla/Magnúss saga góða/37
En er Játvarður hafði lesið bréf þessi þá svaraði hann svo:
Það er öllum mönnum kunnigt hér í landi að Aðalráður konungur faðir minn var óðalborinn til ríkis þessa bæði að fornu og nýju. Vorum vér fjórir synir hans. En er hann var fallinn frá löndum þá tók ríki og konungdóm Játmundur bróðir minn því að hann var elstur vor bræðra. Undi eg þá vel við meðan hann lifði. En eftir hann tók ríkið Knútur konungur stjúpfaðir minn. Var þá eigi dælt til að kalla meðan hann lifði. En eftir hann var konungur Haraldur bróðir minn meðan honum var lífs auðið. En er hann andaðist þá réð Hörða-Knútur bróðir minn fyrir Danaveldi og þótti það þá einu rétt bræðraskipti með okkur að hann væri konungur bæði yfir Englandi og Danmörk en eg hefði ekki ríki til forráða. Nú andaðist hann. Var það þá ráð hér allra landsmanna að taka mig til konungs hér í Englandi. En meðan eg bar ekki tignarnafn þjónaði eg mínum höfðingjum eigi stórlegar en þeir menn er enga ætt áttu hér til ríkis. Nú hefi eg tekið hér konungsvígslu og svo fulllega konungdóm sem faðir minn hafði fyrir mér. Nú mun eg þetta nafn eigi upp gefa að mér lifanda. En ef Magnús konungur kemur hingað til lands með her sinn þá mun eg eigi liði safna í mót honum. Mun hann kost eiga að eignast England og taka mig áður af lífdögum. Segið honum svo mín orð.
Fóru þá sendimenn aftur og komu á fund Magnúss konungs og sögðu honum allt sitt erindi.
Konungur svaraði tómlega og mælti þó svo: „Eg ætla hitt munu vera sannast og best fallið að láta Játvarð konung hafa ríki sitt í ró fyrir mér en halda þessu ríki er guð hefir mig eignast látið.“